Formannskjör í Samfylkingunni.
Mig langar til að deila með ykkur mínum kynnum af Össuri Skarphéðinssyni og störfum hans. Um jólahátíðina 2003 skrifaði ég opið bréf til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem þá um áramótin tæki við starfi Menntamálaráðherra. Einnig sendi ég þetta bréf til allra alþingismanna og á alla fjölmiðla. Þetta bréf innihélt spurningar mínar og vangaveltur um stöðu Listaháskóla Íslands og stöðu Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna gagnvart fólki sem hefði hug á að sækja listanám erlendis. Eins og fyrr segir, sendi ég þetta bréf á alla alþingsmenn Íslands. Sendi ég þetta bréf laust eftir miðnætti þann Annan í Jólum og bjóst svosem ekki við að fá svar strax frá neinum þingmannanna. Það sem gerist í framhaldinu er að um 03:30 sömu nótt fæ ég bréf frá Össuri Skarphéðinssyni þar sem hann biður mig um frekari upplýsingar og fleira um þetta tiltekna bréf. Sendi ég honum það sem hann bað um sömu nótt og fékk svar aftur til baka.
Það sem gerðist í framhaldinu er það að Össur kom mér í samband við Björgvin G Sigurðsson og Katrínu Júlíusdóttur alþingismenn og þau héldu málinu áfram. Össur hélt málinu einnig áfram með því að vera í sambandi við mig í gegnum netpóst. Össur var eini alþingsmaður íslendinga sem svaraði mér, og það að nóttu Annan í jólum. Að mér vitandi hafði Össur ekki vitneskju um það að ég væri flokksmaður Samfylkingarinnar. Þetta er aðeins eitt dæmi um elju og þá hugsjón sem Össur hefur sem pólitíkus. Össur er maður fólksins og er tilbúinn til þess að leggja mikið á sig til þess að vinna fyrir það, það hefur hann sýnt og sannað.
Össur er mjög svo öflugur leiðtogi. Það sýndi sig virkilega í fjölmiðlamálinu á síðasta ári og einnig í því að hann hefur leitt Samfylkinguna í það að vera miðlungsflokkur í skoðannakönnunum í það að verða næst stærsti stjórnmálaflokkur Íslands. Nú síðast í skoðanakönnun Gallup þann 2. maí mælist Samfylkingin með 32% fylgi en betur má ef duga skal og ég trúi því að Össur muni fá það traust flokksmanna sem hann á svo sannarlega skilið og við munum veita honum brautargengi til þess að leiða flokkinn áfram og með það traust á bakinu muni honum ásamt öflugri forrustu takast að sigra stórsigur í næstu alþingiskosningum sem verða 2007 að öllum líkindum og Samfylkingin muni verða leiðandi afl í næstu ríkisstjórn.
Helgina 20. – 22. maí næstkomandi mun það koma í ljós hvor verður formaður mjög svo öflugs stjórnmálaflokk, núverandi formaður Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi varaformaður og tilvonandi þingmaður. Ingibjörg er svo sannarlega góður leiðtogi og góður pólitíkus en ég sé ekki ástæðu til þess nú að skipta um formann, sérstaklega ekki ljósi góðs árangurs flokksins í mörgum mikilvægum málum og í skoðanakönnunum. Því hefur Össur nú þegar fengið mitt atkvæði og hvet ég alla til að kjósa, hvort heldur sem það er Össur eða Ingibjörg. Þitt atkvæði skiptir máli.
1 ummæli:
Hvaða næturbrölt var á Össuri klukkan 3:30? Er hann ekki að setja slæmt fordæmi?
Skrifa ummæli